Kápuna keypti ég mér sjálf. 

Já halló allir saman - ég vona að þið munið ennþá eftir mér en ég er heldur betur búin að vera slöpp
hér inn á og á hinum samfélagsmiðlunum mínum. Ég er búin að vera í mikilli lægð seinustu vikurnar
en þegar ég er föst í lægð þá er ég ekki að reyna að kreista úr mér efni enda vill ég frekar mynda og
blogga þegar mig langar til þess. Ég finn að ég er orðin mun skárri nú þegar snjórinn er farin og sólin
byrjuð að sjá sig en ég nýtti einmitt tækifærið í dag þar sem birtan var æðisleg að mynda nokkrar
flíkur og vörur sem ég mun deila með ykkur á næstu dögum. Svo styttist einnig í að ég geti deilt með
ykkur fyrir/eftir myndum af heimilisbreytingunum en við eigum bara eftir að setja listana á gólfin og 
mála vegginn inn í svefnberhergi í dekkri lit - ég get ekki beðið eftir að klára það og deila svo með 
ykkur lokaútkomunni!

Eitt af því sem ég myndaði í dag var nýjasta viðbótin í fataskápnum en eins og ég var búin að nefna
áður þá var ég í ströngu verslunarbanni í Febrúar. Það var gott að klára það en á sama tíma er ég 
búin að vera mjög dugleg að missa mig ekki í að versla þar sem markmiðið mitt í ár er að versla 
mér fáar en vandaðar flíkur og hugsa mig aðeins um áður en ég kaupi eitthvað. Það var einmitt
það sem ég gerði með þessa kápu en ég hafði séð hana fyrir nokkrum vikum þegar ég heimsótti
Selected og ég kolféll fyrir henni strax. Ég ákvað að kaupa hana ekki við fyrstu sýn heldur fór ég
heim og hugsaði málið í nokkra daga - þetta er snilldarráð og svínvirkar en ég hef hætt við nokkur
kaup eftir að ég byrjaði á þessu. Ef ég er enn að hugsa um flíkina nokkrum dögum seinna, þá leyfi
ég mér hana mögulega en eftir tvær vikur gat ég ekki hætt að hugsa um þessa kápu og því fékk
hún að koma með mér heim fyrir helgi. Þetta voru heldur betur góð kaup en ég hef notað kápuna
mikið eftir að ég fékk hana enda er hún fullkomin - ég elska litinn og sniðið á henni og er hún
ekki of þykk svo hún er fullkomin yfir þykkar peysur þegar það er ennþá kalt og yfir eitthvað
léttara núna í vor 

Kápuna keypti ég í Selected Smáralind og kostaði hún 37.990 krónur.
Vörurnar fékk ég sendar sem gjöf.

Ég hef áður deilt með ykkur hversu hrifin ég er af hárvörunum frá sænska merkinu Maria Nila en ég
skrifaði færslu um True Soft línuna fyrir tveimur árum og svo um Head & Hair Heal línuna nokkrum
mánuðum seinna en þá var merkið nýkomið í sölu hérlendis. Ég hef haldið mig við merkið síðan þá
og er ennþá jafnhrifin, ef ekki meira en ég var fyrst. Ég nota ennþá True Soft línuna reglulega en hún
stendur algjörlega undir nafni og gerir hárið ótrúlega mjúkt og meðferðalegt. Í þeirri línu er Argan
olía sem ég gæti ekki lifað án en ólíkt öðrum hárolíum sem ég hef prófað þá er hún svo létt og þyngir
ekki hárið. Head & Hair Heal línuna nota ég af og til þegar ég finn fyrir pirring og kláða í hársverði.
Nýlega byrjaði ég að nota Volume línuna þar sem mér fannst hárið mitt búið að vera svo flatt og 
líflaust - ég fékk sjampó, næringu og lyftingarsprey sem fer í rakt hár og gefur hárinu strax fyllingu
við rótina. Línan inniheldur B5 vítamin og styrkir því hárið í leiðinni sem er alltaf vel þegið. Ég er
ótrúlega hrifin af þessari línu og er spennt að prófa fleiri frá merkinu - ég á eftir að enda með að
fá valkvíða yfir hvaða línu ég á að nota þar sem allar sem ég hef prófað eru æðislegar!

Vörurnar frá Maria Nila eru allar 100% vegan og eru ekki prófaðar á dýrum 

ASOS bodycon dress (HÉR)     ASOS cropped wrap top (HÉR)
IVY REVEL knitted jumper (HÉR)     SELECTED jumper (HÉR)

Í dag er ég búin að vera í verslunarbanni í 19 daga af 28 og verð ég að segja að þetta er miklu 
miklu miklu auðveldara en ég bjóst við. Ég var alveg vel stressuð í byrjun að mega ekki panta
mér neitt af netinu í heilan mánuð né versla mér eitthvað í stoppum í Bandaríkjunum en þetta 
er búið að vera ótrúlega fínt! Ég hef samt leyft mér að skoða aðeins inn á Asos og langaði mig
að deila með ykkur óskalistanum mínum þaðan í augnablikinu en hann einkennist af ljósbleiku
og svörtu. Einfaldleiki er það sem ég heillast mest af þegar kemur að fatnaði og eins og þið
vitið þá er ég alls ekki litaglöð en þessi fölbleiki litur er í miklu uppáhaldi hjá mér - mér finnst
hann virka alltaf, sama hvort sem það sé hávetur eða vor! 

Ég bíð smá spennt eftir að bannið klárist til að geta pantað mér smávegis en ég ætla klárlega
að byrja að panta minna en áður fyrr, það er allt í lagi að leyfa sér smá en það er kannski gott
að hafa pláss fyrir allt dótið sitt 
Þessi færsla er ekki kostuð // Vörurnar keypti ég mér sjálf.

Nýlega kynntist ég hárvörumerkinu Briogeo en bæði Þórunn og Gyða hafa talað svo vel um vörurnar
að auðvitað varð ég að prófa líka og ég var sko alls ekki svikin! Ég byrjaði á því að prófa sjampó og
næringu frá merkinu og er strax búin að klára það en ég ákvað svo að kaupa mér tvær aðrar vörur í
viðbót sem eru eflaust vinsælustu vörurnar frá merkinu. Fyrst er það Don't Despair, Repair! maskinn
en þetta er djúpnærandi maski sem ég nota einu sinni til tvisvar í viku og skilur það hárið eftir 
silkimjúkt - það gefur hárinu nauðsynlegan raka og inniheldur meðal annars B vítamín, argan olíu,
kollagen og silki. Fyrir jól prófaði ég einnig mjög skemmtilega útgáfu af maskanum en þá fylgir
með hetta til að setja á hausinn eftir að maskinn hefur verið settur í hárið og á hann að fara dýpra
og veita meiri raka. 

Næst er það vara sem ég er nýbúin að kaupa mér og lofar hún mjög góðu en hún var lengi búin
að vera á óskalistanum mínum. Það er Scalp Revival sjampóið en þetta er hreinsandi sjampó
sem inniheldur kol og kókosolíu og skrúbbar það hársvörðin létt. Mér finnst gott að nota svona
sjampó ekki oftar en einu sinni í viku en eiginlega bara eftir þörfum þar sem of mikil notkun 
getur gert hársvörðinn viðkvæmann. Ég nota svo rosalega mikið hársprey og texture sprey út
af vinnunni svo þetta sjampó hreinsar hárið extra vel og er meira en velkomið í rútínuna mína 

Vörurnar keypti ég í Sephora í Bandaríkjunum en Briogeo fæst í Nola og 
inn á nola.is hérlendis. 

Myndir teknar af Pinterest.

Halló halló - ég afsaka þessa löngu þögn sem hefur verið hér á blogginu en ég þurfi bara á smá pásu
að halda en þessi tími ársins finnst mér alltaf svo leiðinlegur. Leiðinlegt veður, skammdegið, útsölur
og því ekkert nýtt að koma í búðir og svo er ég að koma mér aftur í rútínu eftir mánaðarfrí frá skóla
og vinnu. Ég er öll að koma til og er spennt fyrir komandi tímum en núna eftir helgina förum við
loksins í það að skipta um gólfefni á íbúðinni. Þetta er búið að vera ansi langt ferli en það tók okkur
alveg góðan tíma að finna parket sem okkur langaði bæði í. Mig langaði alltaf í ljóst parket en Níelsi
langaði í dökkt svo þetta var mjög erfitt en eftir að við fengum milljón prufur þá fundum við eitt sem
er hvorki of ljóst né of dökkt og er fullkomið! Ég er svo spennt fyrir þessu öllu saman en þetta mun
breyta svo miklu og vonandi gera íbúðina mun bjartari og opnari en núna eru fjögur mismunandi
gólfefni á henni sem er ekki alveg að virka. 

Ég mun deila með ykkur hér á blogginu fyrir og eftir myndum af hverju rými fyrir sig en þar sem
ekkert af þeim er nú þegar með sama gólfefni þá verður gaman að sjá mismunandi breytingar. Það
er grár gólfdúkur á eldhúsinu núna, ljóst parket á stofunni og dekkra inn í svefnherbergi. Ég mun 
svo að sjálfsögðu deila með ykkur ferlinu á hinum miðlunum mínum en þið finnið mig á Snapchat
undir @alexsandrabernh og Instagram Stories undir @alexsandrabernhard 
Blogger Template Created by pipdig