Þessi færsla er ekki kostuð // Stjörnumerktar vörur voru fengnar sem gjöf en annað keypti ég mér sjálf.

Mér finnst alveg magnað hversu hratt tíminn líður þessa dagana. Ágúst er að verða hálfnaður og það
er orðið ansi haustlegt á kvöldin sem ég hata nú ekki þar sem haustið og veturinn finnst mér svo kósý
tími. Þetta haust verður ennþá meira kósý þar sem von er á litla kallinum okkar núna 23. október og
munum við því eyða miklum tíma saman heima að kúra. Ég hef verið ágætlega dugleg að undirbúa
allt saman en kosturinn við að vera ekki að vinna (flugfreyjur mega bara vinna að 16. viku svo ég
hef verið í leyfi síðan í Maí) er að ég hef rosa mikinn tíma til að gera og græja. Ég er búin að fara í
gegnum alla skápa og skúffur hér heima, sortera og henda og gera pláss fyrir dótið hans. Hann verður
inni hjá okkur til að byrja með og því er ég með öll föt í minnstu stærðunum í kommóðunni þar og 
svo stærri föt inn í aukaherbergi. 

Í dag dró ég Níels með mér í Ikea en ég hafði séð á Pinterest sniðuga lausn þar sem Raskog vagninn
úr Ikea var notaður undir barnadót eins og bleyjur, blautþurrkur og taubleyjur og ákvað ég að fá mér
svartan til þess að geyma nákvæmlega þessa hluti í. Ég á eftir að kaupa bleyjur og þess háttar og því
geymi ég dúllerí í vagninum í augnablikinu en ég elska þessa lausn fyrir þá sem eru ekki með mikið
pláss en við erum til dæmis ekki með skiptiborð til að geyma þessa hluti á. Það er einnig ótrúlega
þægilegt að geta rúllað vagninum um alla íbúð og svo seinna meir er hægt að breyta honum í bar
eða geyma snyrtivörur í honum - Raskog vagninn fæst í þremur litum í Ikea og kostar einungis
6.990 krónur 

Taubleyjur frá Cam Cam og fást í Bíum Bíum - Vans skór keyptir í Feneyjum - Jellycat kanína og Konges Slojd
ljón úr Petit - Garbo & Friends leikteppi og skiptidýna* fæst í Dimm. 

Þessi færsla er unnin í samstarfi við ZARKOPERFUME.

Um daginn þegar ég kíkti með vinkonu minni í verslunina Maí á Garðatorgi rak ég augun í ilmvötn
þar sem ég hafði aldrei séð áður og varð ég strax heilluð af þeim. Fyrsta lyktin sem ég tók upp og
þefaði af heitir OUD'ISH og vá, ég spreyjaði smá á hendina á mér og eyddi restinni af deginum
þefandi af sjálfri mér - hún er það góð! Ég er mjög vandlát þegar kemur að ilmvötnum og ég fýla
alls ekki hvað sem er, hvað þá núna þegar ég er ólétt og mjög viðkvæm fyrir mörgum lyktum en
þetta er ein besta lykt sem ég hef nokkurn tíman fundið og er ég svo spennt að fá tækifæri til að
kynna fyrir ykkur merkið ZARKOPERFUME sem er nýlegt hér á landi.

Merkið er danskt og einblínir það eingöngu á að hanna ,,high end" mólikúl ilmi. Mér finnst það
afar heillandi þegar merki einblína á eitthvað eitt ákveðið eins og þetta og gera það vel og því er
ég ótrúlega spennt fyrir merkinu. Ilmirnir fást eingöngu í þremur verslunum hérlendis í augnablikinu
sem eru Maí Garðatorgi, Systur & Makar (einnig á vefverslunum þeirra) og svo fást tveir ilmir í
versluninni Sölku í Vestmannaeyjum. Þrátt fyrir að ég er nýbúin að eignast OUD'ISH þá langar mig
ótrúlega í ilminn sem heitir MOLéCULE 234.38 líka en hann er í miklu uppáhaldi hjá mér líka.
OUD'ISH inniheldur oud sem er eitt af dýrustu hráefnum sem notað er í ilmvatn í heiminum og
ef ég ætti að reyna að lýsa ilminum þá er hann mjög sætur en á sama tíma frekar hlýr og léttur og
það besta við hann er að hann er unisex svo hann hentar öllum 

HÉR getur nú nálgast ilmina í vefverslun Maí og HÉR í vefversluninni Systur & Makar. 

Þessi færsla er ekki kostuð.

Lokins - stundum get ég alveg tekið allan tímann í heiminum að koma hlutum í verk en stundum 
verða þeir að gerast helst í gær. Við fengum þetta gullfallega veggljós frá Design by Us sem fæst í
Snúrunni í jólagjöf í fyrra og tók það okkur ekki nema sjö heila mánuði að finna stað fyrir það og
að setja það upp. Íbúðin okkar er ekki sú stærsta og fann ég aldrei neitt veggpláss fyrir ljósið en
þetta litla horn fyrir ofan sófann var alltaf ofarlega í huganum. Mér fannst veggurinn samt ekki
nægilega stór (stofuglugginn er við hliðina á) til þess að ljósið gæti notið sín sem best en við
ákváðum svo bara að prófa að setja það upp þar og vá, ég er ekkert smá ánægð með útkomuna.

Þrátt fyrir að veggurinn er ekki stór þá kemur ljósið ótrúlega vel út og skil ég ekki af hverju við
vorum ekki löngu búin að þessu. Ljósið var lengi búið að vera á óskalistanum mínum og er ég 
ennþá svo ástfangin af því - það er svo fallegt og gerir allt svo hlýlegt og kósý. Ég var með lampa
á litlu HAY hliðarborði við hliðina á sófanum en ég færði hann inn í herbergi og setti frekar stóran
vasa á borðið með eucalyptus greinum og er breytingin æðisleg 

New Wave Optic veggljósið fæst í Snúrunni og kostar 49.900 kr. 

Þessi færsla er ekki kostuð // Vörurnar keypti ég mér sjálf.

Mér finnst ekkert betra en að finna vörur sem henta húðinni minni og fara vel í hana og
mér finnst það vera ennþá betra þegar maður fer ekki á hausinn út af þeim. Góðar húðvörur
þurfa ekki að vera dýrar en nýlega kynntist ég snyrtivörumerkinu The Ordinary og hafa þær
heldur betur sannað það fyrir mér að góðum gæðum fylgir ekki alltaf hátt verð. Ég elska enn
þær vörur sem ég nota reglulega frá merkinu Drunk Elephant sem ég hef sagt ykkur frá áður 
en er það merki í dýrari kantinum svo mér finnst æðislegt að geta mælt með ódýrum valkosti
fyrir ykkur sem eruð ekki tilbúin að eyða miklu í góðar húðvörur.

The Ordinary er nýlegt húðvörumerki frá Kanada sem hefur náð gríðarlegum vinsældum á
rosalega stuttum tíma og notar Kim Kardashian meira að segja vörur frá þeim. Fyrir nokkrum
mánuðum keypti ég mér fyrstu vöruna frá þeim en er það vara sem heitir Hyaluronic Acid
2% + B5 sem er rakaserum. Að mínu mati er þetta ,,must have" vara ef húðinni þinni vantar
raka. Ég nota serumið daglega bæði á morgnanna og kvöldin og fer það strax inn í húðina og
veitir henni nauðsynlegan raka og verður hún ótrúlega ,,plumped" og ljómandi. Þórunn dró
mig um daginn í verslunina Maí sem er staðsett á Garðatorgi en vörurnar frá merkinu eru
seldar þar og inn á heimasíðunni þeirra mai.is - það var ný sending að koma þá og því vildi
hún drífa sig til að ná vörum en þær klárast víst mjög hratt. Ég var mjög ánægð að hún hafi
dregið mig með en ég labbaði út með þrjár vörur frá merkinu sem ég er ótrúlega spennt að
prófa. Ég ætla að geyma tvær af þeim (Salicylic Acid 2% og AHA 30% & BHA 2% Peeling
Solution) þar til eftir meðgönguna en ég er aðeins byrjuð að prófa mig áfram með Lactic
Acid 5% + HA sem er æðisleg vara. Hún fjarlægir ysta lag húðarinnar mjög varlega og er
því fullkomin fyrir viðkvæma húð - húðin verður ótrúlega ljómandi og mun bjartari en áður
en ég er með leiðinlega rauða bletti eftir bólur sem ég er að reyna að losna við og er ég mjög
bjartsýn að þessar vörur muni bjarga því vandamáli. Ég er það hrifin af þessum vörum að
ég pantaði mér nokkrar í viðbót og bíð ég spennt eftir þeim 

Vörurnar frá The Ordinary fást í Maí Garðatorgi og inn á mai.is og kosta frá 790 krónum til 2.290 krónum.

Skyrtuna keypti ég mér sjálf.

Fyrir nokkrum vikum kom þessi fullkomna skyrta í Vero Moda en því miður missti ég af henni í það 
skiptið. Það verður sífellt erfiðara að klæða sig með tímanum en ég er núna komin 27 vikur og er
bumban orðin smá fyrir - ég var þess vegna svo ánægð í gær þegar ég sá að skyrtan væri komin aftur
og dreif ég mig í Vero Moda í Kringlunni í dag til þess að næla mér í hana. Þar beið hún eftir mér en
hún kom í svörtu, túrkísbláu og gullfallegum karrýgulum lit - ég ákvað að fá mér hana í svörtu og er
það klárt mál að hún verður mikið notuð næstu mánuði. Hún er fullkomin yfir svartar gallabuxur og
fallega skó en ég myndi hafa hraðar hendur þar sem það var ekki mikið eftir af þeim þegar ég fór í
dag 

Skyrtan kostaði 6.990 krónur og fæst í Vero Moda Kringlunni og Smáralind.
Blogger Template Created by pipdig